Okkur í GuðjónÓ – vistvænni prentsmiðju hefur ávallt  verið annt um gamla hluti úr prentsögunni.  Við höfum reynt að grafa upp hluti sem hafa verið hluti af sögu prentsmiðjunnar GuðjónÓ.  Þetta hefur verið frekar erfiður róður fram að þessu.  Nú fyrir stuttu bárust okkur þó tvær myndir af sjálfum höfðingjanum Guðjóni Ó. Guðjónssyni við vinnu sína í réttu umhverfi eða í stofunni  sinni á Hallveigastígnum þar sem hann stofnaði prentstofu sína.  Þarna er Guðjón að vinna við handsetninguna og allt letur tekið upp í haka og ,, jústerað“.

Guðjón var stórtækur í bókaútgáfu, gaf meðal annars út margar stangveiðibækur sem eru fágætar í dag og einnig gaf hann út og kom í prentun ritsafni  Jóns Trausta (sem reyndar var tengdafaðir hans).  Það liggur við að maður finni anganin af þessum myndum, prentsvertu, blýi, pappír, hreinsaðu bensíni, treoklór, white spirit, sem notuð voru í árdaga. Í dag heyra þessi efni sögunni til.  Myndirnar eru augnakonfekt og minna á liðna tíð þar sem handbragðið og kunnáttan voru í heiðri höfð.

Við þökkum aðstandendum Guðjóns fyrir sendinguna og nafnið GuðjónÓ verður og er okkur hvatning til áframhaldandi góðra verka. Guðjón fæddist  1901 og lést 1992. Hann hóf prentsmiðjurekstur 1955 þannig að það er stutt í hálfu öldina undir GuðjónÓ nafninu.