sagagudjono Frá árinu 1955 hefur nafnið GuðjónÓ verið samtvinnað íslenskri prentsögu. Upprunalegt nafn fyrirtækisins var Prentstofa GuðjónsÓ, sem var afar vel við hæfi því að prentvélin (og allt sem henni fylgdi) var staðsett í einu horni stofunnar á heimili Guðjóns Ó. Guðjónssonar á Hallveigarstíg.

Á næstu árum óx prentsmiðjunni fiskur um hrygg. Fyrirtækið stækkaði svo um munaði og Guðjón þurfti að gjöra svo vel og flytja úr húsi sínu á Hallveigarstíg til að standa ekki í vegi fyrir þeirri framþróun sem blasti við.

Á síðustu áratugum hefur prentsmiðjan verið staðsett í eigin húsnæði að Þverholti 13. Á þeim tíma hefur prentsmiðjan haslað sér enn frekari völl innan prentiðnaðarins hér á landi og byggt upp starfsemi og samskipti á markaði sem einkennist fyrst og fremst af áherslu á gæði, hraða, þjónustu og umhverfisvernd. Nú er svo komið að lóðin í Þverholtinu er svo gott sem fullnýtt.

Prentsmiðjan Hjá GuðjónÓ var síðan stofnuð í maí árið 1992. Á þeim árum sem liðin eru frá stofnun hennar hefur starfsemin eflst og blómstrað, og eru starfsmenn prentsmiðjunnar í dag 14 talsins.

Eigendur GuðjónÓ eru Þórleifur V. Friðriksson, Ólafur Stolzenwald og Sigurður Þorláksson.