Þann 17. febrúar árið 2000 tók prentsmiðjan stórt skref í umhverfismálum og fékk svansvottun á framleiðslu sína. Höfum við því verið leiðandi í umhverfismálum síðan og margar prentsmiðjur fylgt okkur í kjölfarið.

Mikil breyting hefur orðið hvað varðar umhverfismál í atvinnulífinu og samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja mun meiri í dag en var til að mynda árið 2000.

Margt hefur breyst hjá GuðjónÓ á þessum árum og stór umhverfisvæn skref hafa verið tekin á þessu fimmtán ára tímabili. Sem dæmi um breytingu til batnaðar höfum við horfið frá því að nota filmur við plötugerð og framkalla prentplötur í vökva. Í staðinn ‘laserbrennum’ við prentplötur stafrænt án allra spilliefna. Auðveldara er nú að fá betri efni sem þarf við framleiðsluna. Pappírsnýting og skilningur fyrir betri nýtingu á hráefnunum er meiri og kúltúrinn annar í okkar fyrirtæki sem lætur sér umhverfið varða. Prentsmiðjan hefur einnig náð því undanfarin ár að nota um 90% af pappír til prentframleiðslunnar sem er Svansmerktur eða er vottaður af Svaninum. Þess má geta að allur vottaður pappír kemur úr nytjaskógum. Öll flokkun er nákvæmari í dag og förgunaraðilar taka nú allt sem til fellur í flokkun, til endurvinnslu og til eyðingar. Einnig hefur stafræn prentun komið meira inní okkar framleiðsluferli.

Við þökkum öllum þeim sem studdu okkur við að taka þessi skref og viðskiptavinum sem hafa nýtt okkar vistvænu þjónustu og prentun.