Við hjá GuðjónÓ erum stolt af því að vera fyrsta umhverfisvæna prentsmiðjan á Íslandi. Við tökum ábyrga afstöðu í umhverfismálum og lítum svo á að heiðarleiki í samskiptum taki einnig til daglegrar umgengni okkar. Við kappkostum að starfsumhverfi okkar sé eins hreinlegt og heilnæmt og frekast er unnt, með velferð starfsmanna, viðskiptavina, samfélagsins og náttúrunnar að leiðarljósi.

Í krafti vandvirkni, og með áherslu á persónulega þjónustu, er okkur tamt að gaumgæfa hið smáa. Þetta vinnulag viljum við nýta í áherslu okkar á umhverfismál og vöndum til verka, hvort sem við höfum beinan fjárhagslegan ávinning af þeim eða ekki. Við viljum geta okkur orð fyrir fyrsta flokks vöru og þjónustu, en aldrei á kostnað umhverfisins. Jafnframt leggjum við áherslu á að sú athygli og umsjón, sem markviss umhverfisvernd krefst, skili sér ekki út í verðlagið á prentverki okkar.

Virðing fyrir umhverfinu er órjúfanlegur hluti af viðskiptastefnu okkar og áherslum. Hún er stjórnunarlegt markmið fyrirtækisins, keppikefli hvers starfsmanns og innprentuð í umgengni okkar utan vinnustaðar og á vinnutíma.

Við erum lifandi fyrirtæki sem lítur á sig sem ábyrgan þátttakanda í vistkeðjunni.

GuðjónÓ- vistvæna prentsmiðjan er elsti svansleyfishafi landsins og unnið eftir stöðlum Svansins í 2 áratugi.

Fyrir gegnsæjan og heilbrigðari rekstur

Umhverfisvottunin felur í sér nákvæmt eftirlit á allri efnisnotkun prentsmiðjunnar. Það er gert til að minnka sóun, bæði á pappír og prentlitum, en hliðarafleiðing af þessu eftirliti er sú að reksturinn verður gegnsærri. Það skilar sér beint í hagkvæmari rekstri á fyrirtækinu, bæði með lægri sorphirðu- og urðunargjöldum og miklu betri nýtingu á hráefni.

Töluverður hluti af umhverfisvænu vörunum er raunar ódýrari en hefðbundnar prentvörur, auk þess sem umhverfisvænir prentlitir hafa gjarnan styttri þornunartíma, sem gerir vinnsluna okkar auðveldari.