Nú á vordögum þessa árs eru tímamót hjá núverandi eigendum prentsmiðjunnar GuðjónÓ, þeir eru búnir að reka prentsmiðjuna í 20 ár. Á þessum tímamótum hefur mikið vatn runnið til sjávar. Gamlir starfsmenn hafa fallið frá og nýir komið í staðinn. Við heiðrum minningu þeirra með því að halda öflugri starfsemi áfram og látum ekkert ófreistað til þess að láta draumana verða að veruleika. Annars er nafnið GuðjónÓ búið að vera í íslenskri prentsögu allar götur frá 1955. Þegar núverandi eigendur tóku við eftir ákveðnar hremmingar sem prentsmiðjan gekk í gegnum fyrir rúmum 20 árum, þá kom ekkert annað til greina en að hafa nafn Guðjóns Ó. Guðjónssonar inni í heiti prentsmiðjunnar, þannig varð nafnið Hjá GuðjónÓ fyrir valinu.

Tæknin hefur tekið miklum framförum á þessum tveim áratugum svo um munar. Öll vinna og framkvæmd á prentgripum í dag er orðin þannig að ef hugmyndin er flókin í allri sinni umgjörð, þá er hún einföld í veruleikanum þegar upp er staðið. Hver prentgripurinn á fætur öðrum hefur öðlast líf og merkingu sem tekið er eftir og hraði við framleiðsluna er með ólíkindum. Í þessarri hringiðu höfum við starfað og erum bara sæmilega ánægðir og stoltir af þeirri vinnu sem við höfum áorkað.

Á þessum tímamótum kemur margt upp í hugann, en þó er okkur efst í huga það góða starfsfólk sem við höfum haft í okkar röðum á undanförnum árum. Ósérhlífið, fórnfúst, og mikil þjónustulund eru aðalsmerki þess. Núna er okkar að horfa fram á veginn og fyllast bjartsýni um að betur megi fara að ára og bölmóðurinn, svartsýnin og neikvæðnin fari að víkja fyrir birtunni sem er fyrir sunnan hálsinn, því þar eru sæluhús.

Einnig er komið á framfæri þakklæti til viðskiptavina, sem hafa gengið ótroðnar slóðir með okkur og tóku þátt í uppbyggingu fyrirtækisins og framgangi þess og einnig þá jákvæðu strauma sem GuðjónÓ fékk strax í byrjun þegar við tókum upp fyrst allra prentfyrirtækja á landinu Svansmerkið í þjónustu okkar árið 2000.