Það eru góðar fréttir að tæp 70% íslenskra bóka eru nú prentuð innanlands og við hjá GuðjónÓ höfum fundið fyrir því. Talsvert meira er prentað af bókum í prentsmiðjunni en áður og gaman að segja frá því að bók Hugos Þórissonar, sem Bókaútgáfan Salka gefur út, er nú í þriðju prentun. Hollráð Hugos er sem stendur í fimmta sæti yfir söluhæstu bækurnar þessi jól og var þriðja best selda bókin í verslunum Eymundsson búðum í síðustu viku.

„Komdu, ég þarf að hlusta á þig.“ Þessi einfalda setning er lýsandi fyrir Bókina Hollráð Hugos – hlustum á börnin okkar. Enda finnst höfundi að foreldrar ættu að nota það óspart í gegnum súrt og sætt. Hugo er mörgum að góðu kunnur. Hann hefur starfað að bættum samskiptum barna og foreldra í yfir 30 ár og hjálpað ótal fjölskyldum. Í bókinni útskýrir hann á einlægan og líflegan hátt hugmyndir sínar um uppeldi sem gera samskipti við börn bæði uppbyggilegri og skemmtilegri. Meiri upplýsingar um bókina er að finna á salka.is.

Þetta haustið höfum við prentað skáldverk, fræðibækur, ljósmyndabækur og matreiðslubækur í prentvélum okkar og í raun er ekki lengur hægt að tala um haustprentun bóka eins og hefð var fyrir, heldur eru bókverk unnin allt árið um kring.