Það vakti mikla gleði hjá starfsmönnum GuðjónÓ þegar barnabókin Þankaganga Myslobieg eftir Völu Þórsdóttur og Agnieszku Nowak hlaut Fjöruverðlaunin árið 2011 í flokki barnabóka. Þetta er óvenjuleg bók um pólsk-íslenska fjölskyldu, einkum hinni tíu ára gömlu Súsönnu, sem þarf að fást við ýmis krefjandi viðfangsefni. Bókin er bæði á íslensku og pólsku og hana prýða skemmtilegar teikningar, sem vöktu mikla lukku hjá starfsmönnum hér innanhússs þegar bókin var prentuð.

Nánari umsögn af vef Rithöfundasambands Íslands:

Þankaganga Myslobieg er samstarfsverkefni Agnieszku Nowak og Völu Þórsdóttur og fyrsta íslenska bókin sem er bæði á íslensku og pólsku. Þankaganga segir á fjörlegan hátt frá hinni tíu ára gömlu íslensk-pólskættuðu Súsönnu sem á við það vandamál að stríða að vera smámælt. Hún er eldklár, forvitin og úrræðagóð sem kemur sér vel þegar hún þarf að greiða úr vandamálum og aðstoða afa og ömmu sem fluttu með fjölskyldunni frá Póllandi til Íslands. Bókina prýða einstaklega skemmtilegar teikningar og leikandi léttur texti sem dregur upp forvitnilega mynd af lífi pólsk-íslensku fjölskyldunnar .

Þankaganga eykur fjölbreytni í íslenskri barnabókaútgáfu, er bráðskemmtileg og falleg bæði hvað varðar útlit og innihald.